Fara í efni

Gleðileg Jól

Sjúkraflutningaskólinn óskar nemendum, leiðbeinendum og öllu samstarfsfólki gleðilegra jóla með von um nýtt og betra ár!

Við horfum bjartsýn til nýs árs.  Því er ekki að leyna að 2020 hefur verið erfitt fyrir nemendur og kennara skólans eins og hjá öllum öðrum.  Þó hefur vonum framar gengið að halda námskeiðum gangandi og mikill meirihluti þeirra hefur tekist að ljúka á árinu.  Það sem hefur helst tafist er starfsþjálfun en margar starfsstöðvar rekstraraðila sjúkrabíla og sjúkrahús hafa þurft að loka fyrir nema í varúðarskyni.

Við horfum bjartsýn til ársins 2021.  Það byrjar með látum hjá okkur strax 4. janúar þegar fyrsti hópur lögreglunema af fimm mætir í verklega lotu í Vettvangshjálp en nú taka allir nemar í lögreglufræðum Vettvangshjálp sem hluta af námi sínu.  Í janúar og febrúar verða einnig keyrðir fimm hópar í framhaldsnáminu, Lotur 1-2-3-4 en þessir hópar eru víða af landinu og sumir hafa tvisvar lent í frestunum á verklegri lotu vegna Covid.  Í febrúar byrja einnig sex hópar í grunnnámi sjúkraflutninga en metfjöldi umsókna var um námið að þessu sinni.  Alls munu 68  nemendur hefja nám í grunnnámi sjúkraflutninga í febrúar en alls bárust 170 umsóknir um námið.  Auk þess eru áætluð endurmenntunarnámskeið víða um land á vorönn.  Margir nemendur frá síðasta ári eiga einnig eftir að klára starfsnám sitt og verður vonandi hægt að koma þeim að.

Vonandi munu allar þessar áætlanir ganga upp.  Allt snýst þetta um að við náum að halda útbreiðslu Covid 19 í skefjum.  Það byggist áfram á einstaklingsbundnum sýkingarvörnum og leggjum við mjög mikla áherslu á það hjá nemendum okkar og er það forsenda þess að námið geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti.

Vonandi eiga flestir notalega jólahátíð, mörg ykkar mun þó standa vaktina fyrir okkur hin og vonandi eigið þið líka róleg jól!