Fara í efni

Samstarfsyfirlýsing menntastofnanna viðbragðsaðila.

Samstarfsyfirlýsing menntastofnanna viðbragðsaðila.

Þann 29.mars síðastliðinn undirrituðu fulltrúar Björgunarskóla Landsbjargar, Brunamálaskólans og Sjúkraflutningaskólans yfirlýsingu um samstarf um menntun og þjálfun viðbragðsaðila á Íslandi á þeim sviðum sem skólarnir sinna.

Í yfirlýsingunni segir að takmarkað samræmi sé í menntun innan málaflokksins og aukið samstarf sé vannýtt auðlind sem virkja megi betur.

Markmið verkefnisins er að greina og samræma menntun og þjálfun sem hagur er á samræmingu um, leiðarljósið er að ávinningur sé skýr fyrir þá einstaklinga, hópa eða samfélög sem standa frammi fyrir neyðarástandi sem krefst viðeigandi viðbragðs.

Reglulega koma upp tilfelli sem gera kröfu á skilvirkt samstarf á vettvangi, þekking á skipulagi og hlutverki hvers og eins er lykilþáttur í að tryggja farsæla úrlausn verkefna. Er samstarfinu ætlað að efla tengsl og styrkja kerfi neyðar og viðbragðsþjónustu á Íslandi til framtíðar.

Fjölþættan ávinning má greina af samstarfinu, sérfræðiþekking finnst víða og með því að vinna saman að námsefnisgerð í ákveðnum þáttum og skapa grundvöll fyrir sameiginlegum námskeiðum er verið að nýta þær auðlindir betur sem nú þegar eru til staðar og styrkja grundvöll fyrir uppbyggingu æfingasvæða.

Fulltrúar Björgunarskólans, Brunamálaskólans og Sjúkraflutningaskólans fagna yfirlýsingunni og telja að um tímamót sé að ræða

„Reglulega berast fréttir af útköllum og verkefnum sem unnin eru í sameiningu og kalla á sérfræðiþekkingu og reynslu frá ólíkum einingum. Takmörkuð aðföng og mannauður eru til staðar í viðbragðskerfinu á Íslandi og mikilvægt að leita allra leiða til að styrkja það og efla. Með þessari yfirlýsingu eru aðilar að sína vilja í verki en mikill metnaður er fyrir því að rækta þetta samstarf og skila raunvörulegum ávinningi. Öll viljum við búa í öruggu samfélagi með þéttu öryggisneti og má því segja að þetta sé tímamótayfirlýsing sem til þess er fallin að styrkja netið okkar til muna“

Á dagskrá er fyrsti fundur fulltrúa skólanna en stefnt er að gefa út og kynna verkefnaáætlun fyrir 30. september 2023.